Skoðun

Hverjum treystir þú?

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar

Framundan eru krefjandi tímar í kjarabaráttunni. Þeir mikilvægustu í langan tíma, þótt kjarasamningar losni ekki fyrr en haustið 2022.

Hvernig verður Covid reikningnum skipt og hvaða hópar fá björgunarhring og hverjir ekki? Verður það gert með sanngjörnum hætti og kreppunni dreift yfir lengri tíma? Eða verður það gert með skattahækkunum, niðurskurði á grunnþjónustu og sölu á verðmætum innviðum og auðlindum samfélagsins?

Hvað verður gert til að bregðast við tekjufalli þeirra sem eru án atvinnu og ná ekki endum saman?

Og nú stefnir í eina alvarlegustu húsnæðiskreppu sem sést hefur langan tíma og lítið virðist um hugmyndir eða framtíðarsýn í húsnæðismálum utan þess sem stjórn VR hefur beitt sér fyrir.

Hvernig sjáum við fyrir okkur framtíð lífeyrismála? Eigum við að sætta okkur við að sjóðirnir verði notaðir sem þögglir bakhjarlar sérhagsmuna eða eigum við að taka málin í okkar hendur?

Það er á mörgu að taka og mikið sem getur glatast á stuttum tíma ef mótstaðan dvínar innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er hart sótt að réttindum okkar og lífskjörum. Alla daga!

Okkur hefur gengið vel. Við höfum náð miklum kjarabótum fyrir þá sem eru á meðallaunum og niður úr. Kjarabótum í gegnum vaxtalækkanir og launahækkanir, skattkerfisbreytingar og með styrkari stoðum í stuðningskerfunum okkar.

En við getum gert betur, miklu betur á mörgum sviðum.

Til þess þarf öfluga og framsýna forystu í verkalýðshreyfingunni, forystu sem stendur í lappirnar og er óhrædd við að segja skoðun sína og er ekki tengd pólitískum sérhagsmunum, hagsmunum sem vilja brjóta niður samtakamátt hreyfingarinnar og draga úr samningsrétti launafólks í skjóli SALEK.

Ég vona að félagsmenn VR geri sér grein fyrir því hvað er raunverulega í húfi. Hvaða mun gerast þegar hugmyndafræði sérhagsmuna kemst báðum megin við borðið.

Það er vægast sagt skelfileg tilhugsun.

Hverjum treystir þú til að leiða verkefnin framundan?

Nýtum kosningaréttinn og kjósum.

Höfundur er formaður VR.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×