Meðal þeirra sem skemmtu á ballinu eru tónlistarmaðurinn Jón Jónsson. Hann, ólíkt félaga sínum Auðunni Blöndal sem einnig skemmti á tónleikunum, er sem stendur fastur í Keflavík.
„Ég var bara að frétta af því núna. Ég var bara að koma af sviðinu,“ segir Jón léttur í samtali við Vísi. „Þetta hittir samt ágætlega á því fjölskyldan er á Akureyri. Ég ætlaði að fljúga aftur á morgun en það verður að koma í ljós.“
„Ætli við förum ekki bara heim til Sverris Bergmann, hann býr hérna í Njarðvík og var að spila á undan mér.“
Stemning hjá Swess
Auðunn Blöndal mun þó ekki leita skjóls hjá Sverri í nótt þar sem hann komst til Reykjavíkur í tæka tíð. Á leiðinni sá hann gosið greinilega, en mikill fjöldi bíla var á Reykjanesbrautinni.
„Það var rosalegt. Það er bíl í bíl, ég veit ekki hvernig fólk ætlar að snúa við,“ segir Auddi sem var nýkominn heim þegar blaðamaður náði af honum tali. „Ég vorkenni fólkinu sem ætlaði að kíkja á þetta, það er örtröð alveg frá álverinu og upp að N1 í Hafnarfirði.“
Hann segist þó feginn að hafa náð að komast heim til sín, á löglegum hraða, áður en brautinni var lokað. Vinir hans sem urðu eftir geti þó treyst á Sverri. „Það verður stemning hjá honum í kvöld.“