Stjarnan og Fylkir mættust í átta liða úrslitum Lengjubikarsins á föstudagskvöldið þar sem Stjörnumenn höfðu betur en síðar kom í ljós að einn Fylkismanna var smitaður.
Árbæingar eru því komnir í sóttkví. Rúnar Páll segir að Stjörnumenn séu ekki í sóttkví, en fari þó varlega.
„Staðan er fín. Það eru allir heilir eins og staðan er í dag og svo kemur í ljós á næstu dögum hvort að einhver hafi smitast hjá okkur sem ég reikna síður með,“ sagði Rúnar Páll í Sportpakka kvöldsins.
„Við erum ekki settir í sóttkví eins og staðan er í dag. Bara Fylkisliðið. Við ákváðum þó að fara varlega í dag og vera heima fyrir,“ en er möguleiki á að Stjörnumenn verði sendir í sóttkví síðar?
„Þú verður að spyrja einhverja aðra en mig um það. Það er bara rakningarteymið sem ákveður það að setja okkur ekki í sóttkví og ekki í skimun. Meira getum við ekki gert í því.“
„Við ákváðum að sleppa æfingu dagsins og vera skynsamir. Maður veit aldrei hvað getur gerst.“
Rúnar hefur ekki áhyggjur af því að þetta smit muni hafa áhrif á komandi leiktíð í íslenska boltanum.
„Nei, ég hef ekki áhyggjur af því. Ég er bjartsýnn maður og vona að þetta verði allt í lagi. Ég vona að leikmaður Fylkis jafni sig fljótt.“
„Við vonum það besta. Þetta er lúmskt en við verðum að vera skynsamir og fara varlega.“
„Við mætum galvaskir til leiks á æfingu á morgun. Við vorum skynsamir í dag og svo er æfing hálf fimm á morgun,“ sagði Rúnar.