Skoðun

Grípum gæsina meðan hún gefst

Brynjólfur Þorkell Brynjólfsson skrifar

Gosið í Geldingadal kom kannski ekki mörgum á óvart. Það er sem betur fer lítið og virðist frekar meinlaust. Almenningur hefur fylgst grannt með þróuninni í aðdragandanum og nú er enginn maður með mönnum sem ekki kann eitthvað fyrir sér í jarðfræði. Áhuginn á gosinu er mikill ,skyldi engan undra, og margir hafa áhuga á að berja gosið augum.

Leiðin að gosinu er nokkuð strembin sérstaklega fyrir óvana göngumenn. Á svæðinu eru nokkrir slóðar sem færir eru öflugum bílum. Þessa slóða er vel hægt að laga. Veghefill og hugsanlega jarðýtur þyrftu ekki langan tíma til að gera þessa slóða aksturshæfa fyrir rútur. Gott væri að merkja leið með stikum svo að skipulagðar jeppa og fjórhjólaferðir endi ekki með ósköpum, það myndi gera öldruðum og fötluðum einstaklingum kleift að berja gosið augum.

Þar sem ferðaþjónustan glímir við kreppu væri greiðfær leið að gosstöðvunum búbót. Fjöldinn allur af rútum stendur verkefnalaus á bílastæðum og skiptir miklu máli að útvega þeim verkefni. Akstur að gosinu í Geldingadal myndi skapa atvinnu þó ekki væri nema í stutta stund.

Bónusinn væri sá að færri slösuðust, enginn þyrfti að týnast á leiðinni, og stóri bónusinn fleiri fengju notið einstaks náttúrufyrirbrigðis. 

Við erum ekki stór þjóð og verðum að nýta öll tækifæri. Eldgosið á Reykjanesi er eitt slíkt. Það eina sem þarf er viljinn.

Höfundur er formaður Miðflokksdeildar í Kópavogi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×