Yfirvöld í IK-2 fanganýlendunni um hundrað kílómetrum austur af Moskvu þar sem Navalní er haldið sögðu í síðustu viku að heilsa hans væri stöðug og ásættanleg. Nokkrir læknar birtu aftur á móti opið bréf á sunnudag þar sem þeir kröfðust þess að Navalní fengi alvöru læknismeðferð. Þeir óttist að hann gæti misst tilfinningu í fótum varanlega.
Navalní segist aðeins hafa fengið almenna verkalyfið íbúprófín og smyrsli við miklum bakverk sem dreifði sér í báða fótleggi hans. Hann krefst þess nú að fá að hitta lækni. Þangað til það gerist verði hann í hungurverkfalli, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Hann hefur einnig lýst illri meðferð fangavarða í fangelsinu. Þeir veki hann á klukkutíma fresti allar nætur. Líkti Navalní því við pyntingar.
Rússnesk stjórnvöld létu handtaka Navalní þegar hann sneri heim frá Þýskalandi í janúar. Þar hafði hann dvalist um nokkurra mánaða skeið eftir að eitrað var fyrir honum um borð í flugvél í Rússlandi. Navalní og vestrænar þjóðir hafa sakað Vladímír Pútín Rússlandsforseta um að hafa látið eitrað fyrir honum. Því neita stjórnvöld í Kreml.
Navalní var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi þar sem hann var talinn hafa rofið skilorð þegar hann gaf sig ekki reglulega fram við rússnesk yfirvöld á meðan hann lá í dái í Þýskalandi. Vestræn ríki hafa krafist þess að rússnesk stjórnvöld láti Navalní lausan.
Talið er að eitrað hafi verið fyrir Navalní með sovéska taugaeitrinu novichok. Rússneskum fyrrverandi njósanara var byrlað sama eitur í bænum Salisbury á Englandi árið 2018. Bresk stjórnvöld telja að rússnesk stjórnvöld hafi staðið að tilræðinu. Fjöldi stjórnarandstæðinga, andófsfólks og blaðamanna hefur látið lífið við voveiflegar aðstæður eða verið fangelsað í um tveggja áratuga langri forsetatíð Pútín.