Skoðun

Ís­lenska módelið og sam­trygging

Drífa Snædal skrifar

Á Evrópuvettvangi er stöðugt fjallað um hvernig styrkja megi stéttarfélög og samtal þeirra við atvinnurekendur annars vegar og stjórnvöld hins vegar. Að evrópskum sið skal koma upp miklum sjóðum til að efla þessi samskipti og regluverk skal fylgja. Það er því ótrúlega öfugsnúið að hér á landi eru raddir sem vilja draga úr þessu samtali, miðstýra því og fækka þeim sem eiga aðild að því. Býsnast er yfir tímanum sem samtalið tekur og fjöldanum sem tekur þátt í kjaraviðræðum. Viðkvæðið sem heyrist er að kjarasamningar séu of margir og stéttarfélög of lítil.

En þarna liggur einmitt styrkur hins íslenska vinnumarkaðar. Hér er há stéttarfélagsaðild, mikil þátttaka í viðræðum og ákvarðanatöku og stuttar boðleiðir. Kjaraviðræður eru nálægt fólkinu sem þær snerta. Í öðrum löndum þykir þetta eftirsóknarvert en hér hafa einhverjir misst sjónar á þeim verðmætum. Það kemur til okkar kasta að verja þau verðmæti sem við búum við og nýta þau til að bæta lífskjör í gegnum kjarasamninga og styrkingu velferðarkerfisins.

Það kemur líka í okkar hlut að verja þær stoðir sem verkalýðshreyfingin byggist á, sem er hugsjónin um samtryggingu. Greitt er af launum fólks í félagssjóði, sjúkrasjóði, lífeyrissjóði, orlofssjóði, fræðslusjóði og til endurhæfingar. Þegar gefur á bátinn, heilsan brestur, sækja þarf aðstoð til að sækja vangoldin laun, tryggja þarf lífeyri á efri árum eða njóta slökunar, þá má sækja í þessa sjóði sem eru á félagslegum grunni. Sjóðirnir eru ekki bankabækur heldur samtryggingasjóðir. Greitt er eftir getu og uppskorið eftir þörfum.

Við skulum alltaf hafa þetta hugfast, ekki síst á tímum nýfrjálshyggju þar sem einstaklingshyggjan ríður húsum. Samspil þessara sjóða við almannatryggingakerfið og velferðarkerfið í heild er svo tilefni til mikilvægrar umræðu sem á að vera stöðug og lifandi án þess að grunnhugsjónin hverfi.

Höfundur er forseti ASÍ




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×