Birta er 21 árs gömul og fór á dögunum í ógleymanlega flugferð yfir eldgosið í Geldingardal. Hún sat þar sjálf í flugstjórnarsætinu og þreytti færnipróf til atvinnuflugmannsskírteinis hjá prófdómara.
„Prófdómarinn minn stakk upp á því að hafa það part af prófinu þar sem að ég hafði ekki séð eldgosið áður. Tilfinningin var alveg mögnuð,“ segir Birta í samtali við Vísi.

Birta hafði á þessum tímapunkti lokið öllum bóklegum prófum og verklegu þjálfuninni til atvinnuflugmannsréttinda og átti því einungis færniprófið eftir til að fá skírteinið loksins í hendurnar.
Hér fyrir neðan má sjá stutt myndskeið úr flugvélinni.
Stressandi en spennandi
Í frétt á vef skólans kemur fram að þetta hafi síður en svo verið auðvelt verkefni, enda mikil eftirspurn eftir því að fljúga yfir gosstöðvarnar. Einungis átta flugvélar eru leyfðar inn í flugsvæðið á sama tíma og því þurfa flugmennirnir að vera einstaklega vel á varðbergi og halda góðum samskiptum í talstöðinni. Svo þarf auðvitað líka að fylgjast með öðrum flugvélum í kring og fljúga flugvélinni af mikilli nákvæmni. Birta segir að allt þetta hafi gengið einstaklega vel.

„Ég flaug flugvél í fyrst skiptið þegar ég byrjaði í skólanum árið 2018. Það var smá stressandi en spennandi tilfinning,“ segir Birta.
Hún hafði lengi látið sig dreyma um að fá að fljúga flugvél, enda ákvað hún að stefna á einkaflugmanninn strax í grunnskóla.
„Það sem heillaði var að fá að fljúga flugvél og ferðast um allan heim, síðan skemmir útsýnið ekki fyrir.“

Lítið að tækifærum í Covid
Birta fór í samtvinnaða atvinnuflugnámið í Flugakademíunni í Keili og stóðst hún færniprófið sitt með glæsibrag.
„Þetta var mjög skemmtilegt og krefjandi nám þar sem að við lærum svo mikið á stuttum tíma.“
Það skemmtilegasta fannst henni samt að fá að fljúga flugvélum.
„Næst hjá mér er MCC námskeið (multi crew co-operation) og síðan ætla ég að skrá mig í flugkennarann,“ segir Birta um framhaldið. Hún ætlar að halda áfram í námi og samhliða því að vinna og fljúga eins mikið og hún getur.
„Heimsfaraldurinn hefur haft veruleg áhrif á námið mitt og seinkað því um ár. Hann hefur einnig haft þau áhrif á að það verður erfitt fyrir mig og aðra flugmenn að fá vinnu.“