Hann kallar eftir því að Alþingi setji lög til að koma í veg fyrir atlögur að opinberum starfsmönnum, ellegar eigi starfsfólk eftirlitsstofnana á hættu að verða „hundelt“ persónulega.
Með orðum sínum vísar Ásgeir til þess að vorið 2019 kærði Samherji fimm af starfsmönnum Seðlabankans til lögreglunnar vegna rannsóknar bankans á meintum brotum á lögum um gjaldeyrismál. Umrædd kæra á hendur starfsfólkinu liggur ennþá hjá embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum. Í lok janúar á þessu ári sagði Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri, í samtali við fréttastofu, að enn sé verið að afla gagna í málinu.
Í ítarlegu viðtali í Stundinni er haft eftir Ásgeiri að Íslandi sé að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og að það sé meiriháttar mál að lenda uppi á kant við þá.