Um önnur stefnumál segir meðal annars að flokkurinn vill hækka persónuafsláttinn í 100 þúsund krónur á næsta kjörtímabili. Þá vill flokkurinn notast við þjóðaratkvæðagreiðslur til að útkljá „öll umdeildustu mál samtíðarinnar.“
Flokkurinn telur ekki rétt að selja Íslandsbanka að svo stöddu né heldur vill hann selja Landsvirkjun. Hann vill skoða að breyta Íslandsbanka eða Landsbankanum í samfélagsbanka og tryggja stöðu íslensku þjóðarinnar.
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er á móti aðild að Evrópusambandinu, vill efna til atkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Schengen-samstarfinu og hafna orkupakka fjögur. Hann vill Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýri, setja Sundabraut og Sundabrú í forgang og er alfarið á móti Borgarlínu.
Þá er flokkurinn fylgjandi persónukjöri og vill beint kjör forsætisráðherra. Hann er fylgjandi því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá og standa vörð um „hreina og ómengaða ímynd“ landsins, svo eitthvað sé nefnt.