Styttist nú óðum í sumarleyfi hjá fjölda Íslendinga og eflaust margar fjölskyldur farnar að íhuga hvort dýfa eigi tánum í manngerðar náttúrulaugar á ferðum sínum innanlands.
Vísir tók saman hvað það kostar fyrir hina hefðbundnu vísitölufjölskyldu að kíkja í lónin og skoðaði verð á sjö mismunandi baðstöðum víðs vegar um landið. Miðast samanburðurinn við ferð tveggja fullorðinna auk tveggja barna á aldrinum átta og þrettán ára.
Allt að 49 prósenta verðmunur
Af þeim stöðum sem voru til skoðunar er ódýrast fyrir umrædda fjölskyldu að fara í Laugarvatn Fontana þar sem hún myndi greiða 9.900 krónur fyrir allan hópinn. Dýrast yrði hins vegar að fara í hið nýopnaða Sky Lagoon á Kársnesi, jafnvel þó gert sé ráð fyrir því að yngsta barnið fái ekki að stíga fæti í lónið vegna aldurstakmarkanna.
Ef foreldrunum er illa við að skilja það yngsta eftir heima þá er dýrasti kosturinn að fara í Vök Baths við Urriðavatn þar sem umrædd vísitölufjölskylda þyrfti að borga 14.800 krónur fyrir að fara í sjóböðin. Munar þar með um 49 prósentum á hæsta og lægsta verði ef ekki er horft til tímabundinna tilboða.
Rýna má í verðsamanburðinn í töflunni hér fyrir neðan. Hafa ber í huga að þar er ekki tekið mið af öllum tilboðum eða afsláttum sem einstaka staðir kunna að bjóða upp á. Verðin eru fengin af vefsíðum baðstaðanna og var ódýrasti pakkinn valinn þar sem við átti.
Misjafnt er hvort ýmis þjónusta á borð við afnot af handklæði er innifalin í verðinu. Þá getur aldur barna haft nokkur áhrif á heildarkostnað fjölskyldna.
Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um Vök Baths.