Skoðun

Ísland á að vera frjálst land

Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Ísland á að vera frjálst land þar sem fólki er frjálst að gera það sem það vill svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Á Íslandi ríkir málfrelsi, skoðanafrelsi og trúfrelsi. Við eigum að standa vörð um þetta frelsi. Hið opinbera þarf að stíga niður með hógværð og jafnræði að leiðarljósi. Hlutverk fjölmiðla er að vera beittir og veita bæði fyrirtækjum og stjórnvöldum aðhald. Þeir eiga að vanda sína umfjöllun og segja satt og rétt frá en til þess að fjölmiðlar virki sem skyldi þurfa þeir að vera gagnrýnir og þeir þurfa líka að vera opnir fyrir gagnrýni á störf sín. Fjölmiðlar þurfa að hafa rými frá samfélaginu til þess að sinna skyldum sínum óáreittir.

Fyrirtæki þurfa að hlýta þessum sömu reglum. Öll fyrirtæki sem ætla sér að eiga bjarta framtíð þurfa að huga að samfélagslegri ábyrgð sinni. Í sinni einföldustu mynd felast (sjálfbærni) og samfélagsleg ábyrgð á því að fyrirtæki og stofnanir axli ábyrgð og hafi uppbyggileg áhrif á umhverfið, stjórnarhætti og samfélagið. Samfélagslega ábyrg hugsun getur meðal annars orðið uppspretta nýrra viðskiptatækifæra og veitt þeim fyrirtækjum sem vinna vel mikið forskot bæði innanlands og utan. Samkeppnishæfni fyrirtækja í dag veltur á því hversu vel þau axla ábyrgð því neytendur gera sífellt meiri kröfur um ábyrga hegðun. Fyrirtækin verða að axla ábyrgð sína og leitast við að hafa uppbyggileg áhrif á umhverfið sitt en ekki skaða það. Stuðningur við íþróttafélög og menningu er gott og mikilvægt en það er ekki nóg. Fyrirtæki sem taka samfélagslega ábyrgð alvarlega, þurfa að standa sig vel í félagslegu þáttunum líka, ekki bara þeim umhverfislegu, virða lýðræðið og alls ekki beita sér gegn því. Fyrirtæki sem ekki huga að samfélagslegri ábyrgð eiga sér ekki framtíð.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og býður sig fram í 2. sætið í komandi prófkjöri.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×