Lögreglan telur að hinn 46 ára gamli Jurgen Conings sé enn á lífi og er hans enn leitað.
Í dag var umfangsmikil leit gerð á skógi vöxnu svæði nærri landamærum Belgíu og Hollands, þar sem bíll hans fannst í síðustu viku. Þá fundust vopn í bílnum. Samkvæmt Brussel Times liggur ekki fyrir af hverju verið að leita aftur í skóginum en leit þar var hætt á laugardaginn síðasta og skógurinn opnaður aftur fyrir almenna borgara.
Í síðustu leit í skóginum fannst tjald sem talið var að Conings hefði notað. Það er nú dregið í efa og segjast rannsakendur í raun ekki vita fyrir víst hvort hermaðurinn hafi nokkurn tímann verið í skóginum, samkvæmt frétt Brussels Times.
Conings hefur verið í belgíska hernum frá 1992. Hann hefur viðamikla reynslu en hefur undanfarið ítrekað verið ávíttur fyrir rasisma og ofbeldisfulla hegðun.
Um þrjú hundruð hermenn og 120 lögregluþjónar hafa tekið þátt í leitinni í dag.
Het Lastste Nieuws segir öryggi hafa verið aukið á móttökustöðum flóttamanna, moskum og öðrum stöðum sem talið er mögulegt að Conings gæti gert árás á.