Þessi reynslumikli Ísfirðingur, sem leikið hefur sem atvinnumaður og með íslenska landsliðinu, lék með Hetti í Dominos-deildinni í vetur.
Sigurður hefur nú samið við Tindastól en þetta kemur fram á skagfirska miðlinum Feyki. „Við erum afskaplega spennt fyrir hans komu á Krókinn og vonumst til að hann styrki íslenska kjarnann í liðinu. Hann hefur mikla reynslu úr úrvalsdeild og ætti að koma sterkur inn,“ segir Ingólfur Jón Geirsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, við Feyki.
Þar segir einnig að vonir standi til að þeir Axel Kárason, Hannes Ingi Másson, Helgi Rafn Viggósson, Jaka Brodnik, Pétur Rúnar Birgisson og Viðar Ágústsson, sem sömdu til tveggja ára í fyrra, verði áfram með Tindastólsliðinu. Önnur mál séu í skoðun.
Sigurður, sem er 32 ára miðherji, hóf ferilinn með KFÍ heima á Ísafirði. Hann hefur einnig leikið með Keflavík, Grindavík, ÍR og nú síðast Hetti hér á Íslandi, auk þess að spila sem atvinnumaður í Svíþjóð og Grikklandi.