Hjá Landsbankanum hækkuðu breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,15 prósentustig í dag. Fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum breytast ekki og vextir á verðtryggðum íbúðalánum, bæði breytilegir og fastir, haldast sömuleiðis óbreyttir.
Vextir óverðtryggðra lána Landsbankans vegna bíla- og tækjafjármögnunar voru hækkaðir um 0,15 prósentustig. Yfirdráttarvextir hækka um 0,10 til 0,25 prósentustig.
Hækka um allt að 0,25 prósentustig
Hjá Arion banka hækka óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir um 0,10 prósentustig og verða 3,54%. Óverðtryggðir fastir þriggja ára íbúðalánavextir hækka um 0,15 prósentustig og verða 4,35%.
Verðtryggðir íbúðalánavextir eru óbreyttir en kjörvextir bílalána hækka um 0,10 prósentustig og verða 5,10%. Yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga hækka um 0,25 prósentustig.
Íslandsbanki hækkar breytilega vexti óverðtryggðra húsnæðislána um 0,25 prósentustig. Fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána til þriggja ára hækka um 0,20 prósentustig og til fimm ára hækka um 0,55 prósentustig.
Breytilegir óverðtryggðir kjörvextir Ergo og vextir bílalána og bílasamninga hækka um 0,25 prósentustig. Yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja hækka sömuleiðis um 0,25 prósentustig.
Hækka líka vexti sparnaðarreikninga
Vextir á íbúðalánum hafa lækkað hratt síðustu fimmtán mánuði samhliða sögulega lágum stýrivöxtum. Nú er breyting þar á en Seðlabankinn tilkynnti þann 19. maí síðastliðinn að stýrivextir yrðu hækkaðir um 0,25 prósentustig, einkum til að bregðast við mikilli verðbólgu sem hefur reynst þrálátari en gert var ráð fyrir.
Litast verðbólgan meðal annars af hækkun húsnæðisverðs sem talin er að hluta tilkomin vegna lækkunar lánsvaxta og tilheyrandi þrýstings á fasteignamarkaðnum.
Stýrivaxtahækkunin hefur sömuleiðis áhrif á innlánsvexti bankanna.
Landsbankinn hækkar vextir á óverðtryggðum sparireikningum um allt að 0,20 prósentustig. Vextir á reikningum með föstum vöxtum hækka í flestum tilvikum um 0,25 prósentustig en vextir almennra veltureikninga haldast óbreyttir.
Arion banki og Íslandsbanki hækka vexti helstu sparnaðarreikninga um 0,10 til 0,25 prósentustig.