Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að talsverður fjöldi hafi lagt leið sína í miðborgina til þess að skemmta sér. Þegar leið að lokun skemmtistaðanna á miðnætti hafi mátt sjá óvenjumarga á ferðinni miðað við ástandið síðasta árið í kórónuveirufaraldrinum.
Til marks um hversu vel nóttin hafi gengið segir lögreglan að engar tilkynningar hafi borist um líkamsárás í miðborginni.
Á höfuðborgarsvæðinu voru aftur á móti sjö handteknir fyrir ölvunar- eða fíkniefnaakstur. Einn þeirra var handtekinn í Breiðholti en hann hafði þá ekið töluverða leið á sprungnum hjólbörðum og segir lögregla að bifreiðin hafi verið komin á felgurnar.
Tveir vegfarendur fundu umtalsvert magn peninga úti á götu í póstnúmeri 101 um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi. Létu þeir lögreglu vita af fjármununum.