Skoðun

Innanhússrannsókn Ernu

Ólafur Stephensen skrifar

Erna Bjarnadóttir, starfsmaður Mjólkursamsölunnar og pennavinkona mín, dregur fáeinar rangar ályktanir í grein sem hún birti hér á Vísi í gær, um Félag atvinnurekenda og fríverzlunarsamning við Bretland. Ég leyfi mér að staldra við tvær.

Erna vitnar í fyrsta lagi til fréttatilkynningar FA, þar sem sagt var frá því að hagsmunaaðilar í landbúnaði hefðu lagzt gegn útvíkkun fríverzlunar með búvörur milli Íslands og Bretlands. Erna segir að FA hafi greinilega fengið nákvæmar upplýsingar um hvað var að gerast í samningaviðræðum Íslands og Bretlands og fengið meiri upplýsingar en hagsmunaaðilar í landbúnaði.

Ernu skal í fullri vinsemd bent á dagsetninguna á fréttatilkynningu FA. Hún var send út á mánudag en samningum við Bretland lauk í síðustu viku. FA fékk engar upplýsingar um gang viðræðnanna frá stjórnvöldum meðan á þeim stóð og ekki eftir að þeim lauk heldur, annað en það sem fram kom á vef utanríkisráðuneytisins. Formaður Bændasamtakanna upplýsti hins vegar í Morgunblaðinu á mánudag að þau hefðu átt fund með utanríkisráðuneytinu meðan á viðræðum stóð, fengið upplýsingar og komið sjónarmiðum sínum á framfæri. FA hefði verið þakklátt fyrir svipaðan aðgang, en honum var ekki fyrir að fara.

Í öðru lagi segir Erna, eftir að hafa ranglega búið til í huga sér einhverja aðkomu FA að samningaviðræðunum vegna þess að félagið býr yfir upplýsingum um gang þeirra, að hún sé „fordæmalaus“, „á kostnað almennra viðskiptahagsmuna Íslands í samningaviðræðunum“ og málið verði að „rannsaka sérstaklega“. Það væri klárlega gagnlegt að hafin yrði rannsókn á óeðlilegum áhrifum sérhagsmuna á þessar samningaviðræður, en helzt gæti sú rannsókn orðið innanhússrannsókn hjá hagsmunaaðilum í landbúnaðinum – einhver úr þeirra hópi gæti nefnilega hafa verið svolítið gleiður að lýsa því hvernig tókst að koma í veg fyrir að tilboði Breta um aukna fríverzlun með búvörur yrði tekið.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.


Tengdar fréttir

Félag atvinnurekenda og fríverslunarsamningur við Bretland

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) fer mikinn þessa dagana vegna kynningar utanríkisráðherra á samningsdrögum að nýjum fríverslunarsamningi við Bretland. Í langri fréttatilkynningu FA um samningsdrögin eru hlutirnir málaðir sterkum litum. Enn og aftur rennur framkvæmdastjórinn til á svellinu, en það er ekki í fyrsta skipti.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×