Ráðist var á tölvukerfi JBS í síðustu viku sem varð til þess að loka þurfti verksmiðjum og sláturhúsum í Ástralíu, Kanada og Bandaríkjunum.
Tölvuþrjótarnir vildu fá greitt í Bitcoin rafmyntinni og á endanum var fallist á kröfur þeirra.
Forseti fyrirtækisins segir ákvörðunina hafa verið þungbæra en þrjótarnir hótuðu að eyðileggja tölvukerfið og eyða gögnum yrði ekki fallist á kröfu þeirra.
Talsmenn fyrirtækisins sögðust einnig hafa neyðst til að greiða lausnargjaldið til að vernda viðskiptavini sína, jafnvel þótt engum gögnum um þá hefði verið stolið.
Samkvæmt heimildarmönnum innan Hvíta hússins er talið líklegt að rekja megi netárásina til Rússlands en Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn til Evrópu um þessar mundir og hyggst meðal annars ræða tölvuglæpi við Vladimir Pútín Rússlandsforseta.