Málið er höfðað í Kaliforníuríki en í málsgögnum er Mindgeek sakað um að vera glæpafyrirtæki. Pornhub hefur gefið út yfirlýsingu þar sem öllum ásökunum er hafnað og þær sagðar „rangar, fáránlegar og óábyrgar.“
„Pornhub hefur enga þolinmæði fyrir ólöglegu efni og rannsakar allar kvartanir eða ásakanir er varða efni á okkar miðlum,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins, sem segir að hvert einasta myndband sem hlaðið er upp á vefinn sé yfirfarið af manneskjum.
BBC greinir þó frá því að Pornhub geri ekki kröfu um að aldur fólks sem birtist í myndböndum á síðunni sé kannaður, og þannig liggi ekki alltaf fyrir hvort um ólögráða einstaklinga sé að ræða í myndböndunum, og þar af leiðandi barnaklám. Þá liggi ekki fyrir hvort fólk í myndböndunum hafi yfir höfuð gefið samþykki fyrir því að myndböndunum yrði hlaðið upp á vefinn.
Ein kvennanna sem höfða málið segist hafa verið 17 ára þegar kærasti hennar gekk á eftir henni um að gera myndband þar sem hún var nakin. Konan, sem kom ekki fram undir sínu rétta nafni í viðtalinu, segir að myndbandinu hafi í kjölfarið verið hlaðið upp á klámsíðuna án sinnar vitundar.
Árið 2019 voru heimsóknir á síðuna 42 milljarðar talsins, og mátti þar finna 6,83 milljónir myndbanda, sem samanlagt tæki 169 ár að horfa á. Pornhub hefur ekki gefið upp hversu marga starfsmenn þeir eru með í vinnu hjá sér við að fara yfir efni sem hlaðið er upp á vefinn.
Í desember á síðasta ári virtust niðurstöður rannsóknar á vegum New York Times þá sýna að á síðunni væri að finna fjöldann allan af myndböndum sem sýndu barnaníð og jafnvel nauðganir, en forsvarsmenn síðunnar höfnuðu þeim ásökunum jafnt sem öðrum.