Öllum samkomutakmörkunum hafði þá nýverið aflétt og um leið öllum hömlum á opnunartíma skemmtistaða.
Fulltrúar fréttastofu voru mættir niður í miðbæ á slaginu tólf í nótt, um það leyti sem mannskapurinn hefur verið að hverfa frá miðbænum síðustu mánuði.
Í þetta skiptið var fólkið þó rétt að byrja að skemmta sér og augljóst að hér ætti djammið eftir að standa fram á rauða nótt.
Ferðin hófst á gatnamótum Laugavegar og Ingólfsstrætis og náði fréttastofa tali af fólki af öllum toga, ungum jafnt sem öldnum.
En þó fólkið hafi verið misjafnt var markmiðið sameiginlegt: Að fagna þessari sögulegu stundu á viðeigandi máta, sumir með „púkastælum“ en aðrir í mestu makindum í góðra vina hópi á Kalda barnum.
Við látum myndefni og viðtöl okkar frá gærkvöldinu tala sínu máli í spilaranum hér að ofan.