Vítin voru til umræðu í Pepsi Max Mörkunum í gærkvöld þar sem Helena Ólafsdóttir var með þær Mist Rúnarsdóttur og Lilja Dögg Valþórsdóttir sem sérfræðinga.
Delaney Baie Pridham kom ÍBV yfir í fyrri hálfleik og fékk tækifæri til að tvöfalda forskotið í lok fyrri hálfleiks eftir að víti var dæmt á Sóleyju Maríu Steinarsdóttur fyrir brot á Olgu Sevcovu.
„Þær lenda undir þarna en Íris Dögg Gunnarsdóttir er þvílíkur „match-winner“ fyrir Þrótt þarna. Hún ver víti í uppbótartíma í fyrri hálfleik, sem heldur þeim „bara“ einu marki undir, og bjargar svo þessum þremur stigum í lokin með því að verja annað víti,“ sagði Mist, en vítin og umræðuna má sjá hér að neðan.
Íris var ekki á því að dæma hefði átt víti á Sóleyju:
„Ég veit ekki með þetta. Hún [Olga] er auðvitað klók; finnur fyrir handleggnum á bakinu á sér og lætur sig bara detta. En þetta var ekki snerting sem hefði alla jafna látið hana detta.“
Olga náði einnig í seinna vítið sem ÍBV fékk en þá braut Lorena Baumann á henni. Liana Hinds tók vítið í þetta sinn en Íris greip boltann.
„Þetta er ekki gott víti,“ benti Lilja á og Helena velti fyrir sér hvort að Hinds hefði átt að taka þetta víti og Mist sagði að Pridham hefði verðskuldað annað tækifæri:
„Mér finnst það alla vega sérstakt þegar þú ert með markahæsta leikmann deildarinnar á þessum tímapunkti, þó að hún hafi klúðrað einu víti, að hún fari ekki aftur á punktinn. En kannski er Liana sjóðheit í vítakeppnum á æfingum,“ sagði Mist.
Þróttur fékk eitt víti, þegar Antoinette Williams braut á Katherine Cousins. Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving varði spyrnu Ólafar Sigríðar Kristinsdóttur en Ólöf náði hins vegar að fylgja á eftir og skora sigurmark Þróttar.
Öll vítin og umræðuna má sjá hér að ofan.

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.