Enn sem komið er hefur enginn fundist á lífi síðan húsið hrundi óvænt aðfaranótt 24. júní.
Lík 36 hafa fundist og 109 er enn saknað, þó ekki sé staðfest að allir þeirra hafi verið í Champlain Towers South þegar hluti hússins hrundi. Leitin hefur staðið yfir í fjórtán daga og hefur rigning og rok vegna óveðursins Elsu komið niður á leitarstarfi.
AP fréttaveitan segir forsvarsmenn leitarinnar enn tala um að finna að fólk á lífi en tónn þeirra hafi breyst töluvert. Til marks um það hafi einn yfirmanna lögreglunnar sagt í gærkvöldi að helsta verkefni leitarmanna væri að veita aðstandendum þeirra sem saknað er svör.
Sambærilegur tónn var í ummælum slökkviliðsstjóra Miami -Dade sýslu sem sagði að verið væri að leita að opnum rýmum í rústunum sem fólk gæti verið í en útlitið væri ekki gott. Leitarmenn hefðu engar jákvæðar vísbendingar séð.
Hann sagði nánast engar líkur á því að finna einhvern á lífi.
Sérfræðingar sem hafa skoðað rústirnar segjast hafa séð merki um galla í grunni fjölbýlishússins, sem var þrettán hæðir. Mögulega hafi byggingin verið gölluð.
Eigendur hússins vissu af því að þörf var á umfangsmiklum og kostnaðarsömum viðgerðum en húsið var byggt árið 1981. Stjórn hússins hafði sent byggingarfulltrúa skýrslu sem gerð var um ástand hússins og sá hafði sagt húsið í mjög góðu ástandi.