Hóparnir tveir hugðust senda fulltrúa til að berjast með berum hnefum í blönduðum bardagalistum í Helsinki á laugardag, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE. Dagblaðið Iltalehti sem sagði fyrst frá viðburðinum hafði eftir Omos Oko, skipuleggjanda hans, að þetta væri kjörið tækifæri fyrir hópana að leiða hesta sína saman.
Lögreglunni var ekki eins skemmt. Hún nýtti sér ákvæði finnskra laga sem heimila takmarkanir á samkomufrelsi ef samkoma er talin ógna heilsu fólks. Heikki Porola, yfirlögregluþjónn, sagði YLE að ennfremur væri talin hætta á að viðburðurinn færi úr böndunum og að allsherjarreglu gæti verið ógnað.
Þá hafði lögreglan uppi efasemdir um hvort að raunverulegan íþróttaviðburð væri að ræða eða skipulagt ofbeldi.
Finnska leyniþjónustan Supo varaði við því í fyrra að öfgahægrihópar eins og nýnasistar notuðu bardagaíþróttir til þess að laða að nýja fylgismenn og breiða út hvíta þjóðernishyggju. Þeir skipulegðu einnig mótmæli og tónlistarhátíðir til þess að ná til nýrra liðsmanna.