Skoðun

Færeyingar mótmæla vígvæðingu norðurslóða

Guttormur Þorsteinsson skrifar

Á miðvikudaginn munu Færeyingar safnast saman á Sornfelli þar sem var starfrækt ratsjárstöð á vegum Nató í kalda stríðinu. Án vitundar Færeyinga voru þar staðsettir Bandarískir hermenn um árabil en Danir höfðu stundað þau hrossakaup að útvega Nató og Bandaríkjaher land undir herstöðvar á Grænlandi og Færeyjum gegn lægri útgjöldum til hernaðarbandalagsins. Þetta svipar til afstöðu íslenskra stjórnvalda sem að voru þó að minnsta kosti að bjóða fram sitt eigið land til afnota. Undirferli danskra stjórnvalda vakti skiljanlega mikla gremju í Færeyjum og nú vakna upp gamlir draugar þegar Danir hafa samþykkt að leyfa aftur rekstur ratsjárstöðvar á vegum Nató í Færeyjum. Ekki er enn ljóst hvort að lögþing Færeyja samþykkir þessar fyrirætlanir eða hvort að það fær yfir höfuð einhverju að ráða um þær.

Það er hins vegar alveg ljóst að færeyskur almenningur vill ekki taka þátt í endurnýjaðri vígvæðingu norðurslóða. Boðað hefur verið til mótmæla við gömlu ratsjárstöðina á Sornfelli þar sem Færeyingar munu fjölmenna þrátt fyrir þverhnípi og þrönga vegi. Íslendingar hafa líka fengið að kynnast þessari hernaðaruppbyggingu, nú er til dæmis bandaríski tundurspillirinn USS Roosevelt við bakka í Sundahöfn og sífellt er verið að stinga upp á herskipahöfnum og frekari viðbúnaði á Keflavíkurflugvelli. Samtök hernaðarandstæðinga boða því til samstöðumótmæla fyrir framan Færeysku sendiskrifstofuna við Hallveigarstaði kl. 20:00 miðvikudaginn 21. júlí enda er þetta mál sem varðar alla íbúa Norður-Atlantshafseyja.

Höfundur er formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×