Það var Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri, sem opnaði sýninguna formlega í byrjun sumars og eftir það hefur verið stöðugur straumur fólks, heimamanna og ferðamanna til að skoða sýninguna, sem kemur skemmtilega út í kringum trjágróðurinn í miðbæ Hvolsvallar.
Það eru áhugaljósmyndarar í Ljósmyndaklúbbnum 860+, sem tóku allar myndirnar á sýningunni en þetta er ellefta árið í röð, sem klúbburinn stendur fyrir sýningu, sem þessari.

„Þetta eru stórglæsilegar myndir að vanda og við hvetjum auðvitað alla til að koma hér á Hvolsvöll í sumar og skoða þessi listaverk, þau eru mikið prýði fyrir miðbæinn,“ segir Lilja.
„Sýningin í ár er mjög fjölbreytt og skemmtileg og skemmtileg uppsetning á henni. Við eigum nóg af ljósmyndurum en við erum 38 í klúbbnum en það er ekki nema 19 sýnendur núna. Sumir eru að æfa sig enn þá og ekki búnir að skila inn myndum,“ segir Baldur Ólafsson, sem á sæti í stjórn 860+ og á myndir á sýningunni.

„Þetta eru bæði náttúruljósmyndir, fuglalíf og dýralíf allskonar, það er bara mjög fjölbreytt úrval af myndum, snjór, vetur og sumar og fullt af öðrum, þetta er öll flóran. Það eru allir velkomnir, sýningin er opinn allan sólarhringinn, menn geta komið og skoðað þegar þeim hentar. Þetta er ekki sölusýning en ef einhver vill kaupa mynd þá getur hann sett sig í samband við okkur og hann getur örugglega fengið hana,“ bætir Baldur við.
