Sú var tíðin að foreldrar leikskóla- og grunnskólabarna óttuðust hvað mest lúsapósta frá skólayfirvöldum í upphafi skólaárs. Það hins vegar ekki lúsin sem var umfjöllunarefni tölvupósts sem barst foreldrum á Leikskóla Seltjarnarness í byrjun vikunnar heldur Covid-19 smit starfsmanns.
Samkvæmt fyrirmælum sóttvarnaryfirvalda og smitrakningarteymi almannavarna voru öll börn á Bakka í Sólbrekku, einnar deildar leikskólans, sett í sóttkví og á þriðja tug starfsmanna sömuleiðis. Ástæðan var sameiginlegir snertifletir barna og starfsmanna á Sólbrekku.
Börnin á Bakka eru í sóttkví en börn á öðrum deildum Sólbrekku komast ekki í leikskólann þar sem deildin er lokuð vegna sóttkvíar starfsmanna.
Baldur Pálsson, fræðslustjóri Seltjarnarness, útskýrir að Leikskóli Seltjarnarness telji 225 börn á fjórum starfsstöðvum. Krakkar og starfsfólk á öðrum starfstöðvum geta áfram mætt á leikskólann en Sólbrekka verður lokuð til þriðjudags.
Börnin og starfsfólk fer í skimun á mánudag en hann hefur ekki heyrt af frekari smitum.
„Engar fréttir eru góðar fréttir þegar kemur að þessu,“ segir Baldur. Hann merkir ekki auknar áhyggjur í foreldrahópnum af mögulegri sóttkví í vetur vegna Covid-19 smita.
„Við höfum sloppið alveg gríðarlega vel í gegnum fyrri bylgjur. Það hefur ákaflega lítil truflun orðið á starfseminni og fólk virðist taka þessu af æðruleysi.“
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa foreldrar ekki fengið skilaboð eða leiðbeiningar frá yfirvöldum í formi símtala eða smáskilaboða til að staðfesta sóttkvína, aðeins tölvupóst frá skólastjórnendum.
Fréttin hefur verið uppfærð.