Í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu segir að markmið sóttvarnaráðstafana í skólum séu sem fyrr að stuðla að öryggi og velferð nemenda, kennara og annars starfsfólks en jafnframt að tryggja, eftir því sem kostur er, kraftmikið og fjölbreytt skólastarf á öllum skólastigum.
„Viðbragðsáætlanir vegna smita eru til staðar í öllum skólum. Rekstraraðilar skóla og skólastjórnendur geta gripið til frekari sóttvarnaráðstafana sem mæta aðstæðum á hverjum stað, s.s. frekari hólfaskiptinga í starfsemi og aukinnar grímunotkunar, m.a. til að vernda viðkvæma hópa, draga úr smithættu og auðvelda rakningu, svo fremi sem það bitni ekki á þjónustu við nemendur. Áhersla skal vera á sem eðlilegast skólastarf eins og kostur er á öllum skólastigum.
Leikskólar:
- Leikskólabörn eru undanskilin fjöldatakmörkunum, 1 metra fjarlægðarreglu og grímuskyldu.
- Samanlagður hámarksfjöldi þeirra sem fæddir eru 2016 og fyrr er 200 í rými.
- Þegar starfsfólk nær ekki að halda nálægðarmörk (1 m) sín á milli ber að nota andlitsgrímu.
- Blöndun hópa er heimil, hvort sem um ræðir börn eða starfsfólk en starfsfólk skal gæta fyllstu varúðar og virða nálægðarmörk eftir því sem frekast er unnt.
- Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi sýni aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingar og gæti að sóttvörnum. Hvatt er til grímunotkunar gesta í skólabyggingum.
- Við aðlögun barna skal viðvera foreldra skipulögð þannig að þeir þurfi sem minnst að nota hreinlætis- og mataraðstöðu í skólabyggingum og skulu þeir gæta að nálægðar¬takmörkun jafnt sín á milli og gagnvart starfsfólki.
- Um viðburði á vegum leikskóla gilda sömu sóttvarnaráðstafanir og 200 manna fjöldatakmörkun fullorðinna.
Grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar:
- Grunnskólabörn eru undanskilin 1 metra fjarlægðarreglu og grímuskyldu, en þau skulu hvött til fyllstu varkárni og persónulegra sóttvarna.
- Samanlagður hámarksfjöldi starfsfólks og nemenda í rými er 200.
- Þegar starfsfólk nær ekki að viðhafa nálægðarmörk (1 m) sín á milli ber að nota andlitsgrímu.
- Blöndun hópa er heimil, hvort sem um ræðir börn eða starfsfólk.
- Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi eiga að sýna aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingar og gæta að sóttvörnum. Hvatt er til grímunotkunar gesta í skólabyggingum, en skólum er jafnframt heimilt að takmarka enn frekar komu gesta í skólabyggingar.
- Um viðburði á vegum grunnskóla gilda sömu sóttvarnaráðstafanir og 200 manna fjöldatakmörkun fullorðinna.
Tónlistarskólar:
- Nemendur á grunnskólaaldri eru undanþegnir 1 metra fjarlægðarreglu og grímuskyldu, en þau skulu hvött til fyllstu varkárni og persónulegra sóttvarna.
- Leyfilegur hámarksfjöldi starfsfólks og nemenda er 200 í rými.
- Þegar starfsfólk og nemendur fæddir árið 2005 og fyrr ná ekki að virða nálægðarmörk (1 m) ber að nota andlitsgrímu.
- Blöndun hópa er heimil, hvort sem um ræðir nemendur eða starfsfólk.
- Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi eiga að sýna aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingar og gæta að sóttvörnum. Hvatt er til grímunotkunar gesta í skólabyggingum, en skólum er jafnframt heimilt að takmarka enn frekar komu gesta í skólabyggingar.
- Um viðburði á vegum skóla gilda sömu sóttvarnaráðstafanir og 200 manna fjöldatakmörkun fullorðinna.
Framhaldsskólar og skólar sem kenna á framhaldsskólastigi:
- Nemendur og starfsfólk skal bera grímu þar sem ekki er hægt að virða 1 metra nándarreglu.
- Þó er heimilt að víkja frá grímuskyldu eftir að nemendur eru sestir niður inni í skólastofu.
- Leyfilegur hámarksfjöldi starfsfólks og nemenda er 200 í rými.
- Blöndun hópa er heimil, hvort sem um ræðir nemendur eða starfsfólk. Umraða má í hópum milli kennslutíma og lesaðstöðu en mælst er til að sótthreinsað verði milli hópa.
- Um viðburði á vegum framhaldsskóla eða nemendafélaga þeirra gilda sömu sóttvarnaráðstafanir og 200 manna fjöldatakmörkun fullorðinna.
Háskólar:
- Nemendur og starfsfólk skal bera grímu þar sem ekki er hægt að virða 1 metra nándarreglu.
- Þó er heimilt að víkja frá grímuskyldu eftir að nemendur eru sestir niður inni í skólastofu.
- Leyfilegur hámarksfjöldi starfsfólks og nemenda er 200 í rými.
- Blöndun hópa er heimil, hvort sem um ræðir nemendur eða starfsfólk. Umraða má í hópum milli kennslutíma og lesaðstöðu en mælst er til að sótthreinsað verði milli hópa.
- Um viðburði á vegum skóla eða nemendafélaga þeirra gilda sömu sóttvarnaráðstafanir og 200 manna fjöldatakmörkun fullorðinna.
Í reglugerð heilbrigðisráðherra er fjallað sérstaklega um þrif og sótthreinsun rýma. Skóla skal þrífa eins og oft og unnt er, sér í lagi algenga snertifleti. Auk þess skal minna á einstaklingsbundnar sóttvarnir, tryggja góða loftræstingu og lofta reglulega út. Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á.“