Bogi Nils býr í Grafarvogi ásamt fjölskyldu sinni og hundi. Hann er morguntýpa og býr í þriggja mínútna göngufjarlægð frá golfvelli og spilar því stundum golf áður en hann mætir á skrifstofuna um átta.
„Maður fer alltaf með hundinn að labba á morgnana. Það er ágætt að taka hann með og nýta tímann áður en að fólkið mætir á vellina.“
Ef hann hittir félaga í morgungolf skilur hann hundinn þó oft eftir heima og spilar fleiri holur. Sindri Sindrason fékk sér morgunkaffi með Boga og fékk að kynnast honum aðeins betur. Bogi er fæddur á Akureyri árið 1969 en ólst upp á Eskifirði. Eiginkona Boga er Björk Unnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og þau eiga saman 26 ára tvíbura og 15 ára dóttur.
Unnu nánast allan sólarhringinn
„Ég flutti til Eskifjarðar þegar ég var sjö ára. Við bjuggum mjög nálægt hvort öðru þannig að maður hitti hana fyrst þegar maður flutti þangað sjö ára. Ég var og er mjög góður vinur bróður hennar,“ segir Bogi um það hvernig þau kynntust.
„87 má segja að við höfum farið að stinga saman nefjum með öðrum hætti en áður og höfum verið saman síðan.“
Bogi hefur stjórnað Icelandair í gegnum eitt erfiðasta tímabil félagsins og segir bjarta tíma vera fram undan. Hann viðurkennir að starfsfólkið hafi unnið mjög mikið síðustu misseri en nú hafi róast þó að það sé alltaf mikið að gera.
„Þegar við vorum í þessu stóra verkefni í fyrra að koma fyrirtækinu í gegnum þetta og endurskipuleggja fjárhaginn og safna hlutafé, þá vorum við eiginlega 24/7 í þessu alla daga vikunnar í sjö mánuði. Það var mjög mikil törn. Það var mjög skemmtilegt að við skyldum fara í gegnum þetta og það var frábært teymi sem að vann saman að þessu.“
Ísland í dag innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.