Fjallað er um málið í Morgunblaðinu en þar segir meðal annars að rannsóknarleiðangur sumarsins hafi verið farinn undir forystu Þórarins og hins ítalska Giancarlo Gianazza, sem er sannfærður um að kaleikinn sé að finna á Íslandi.
Gianazza, sem er verkfræðingur og dulmálssérfræðingur, byggir kenningu sína á vísbendingum í málverkum og Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante. Hann telur musterisriddara hafa komið hingað til lands í byrjun 13. aldar og að þeir hafi fengið aðstoð hjá Snorra Sturlusyni við að fela kaleikinn og aðra dýrgripi.
Að því er fram kemur í Morgunblaðinu var leiðangurinn stuttur að þessu sinni en leit Gianazza hófst árið 2004 og hefur hann ekki í hyggju að gefast upp. „Svarið er hvergi skrifað nema bara í jörðinni,“ segir Þórarinn.