Skoðun

Jöfnum leikinn með vaxta­rstyrkjum

Brynja Dan Gunnarsdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir skrifa

Á síðastliðnum árum hefur samfélagið áttað sig á mikilvægi íþrótta- og tómstunda á þroska barna. Kostirnir við iðkun íþrótta- og tómstunda eru fjölmargir. Í þeim efnum má til dæmis nefna lýðheilsusjónarmið, en frístundaiðkun stuðlar að líkamlegu og andlegu heilbrigði. Að auki hafa rannsóknir sýnt að ungmenni sem stunda skipulagt frístundastarf eru ólíklegri til að neyta áfengis- eða annarra vímugjafa eða stunda aðra óæskilega hegðun. Forvarnargildi frístundastarfs er óumdeilanlegt.

Frístundastyrkir

Tölfræðin sýnir að íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna hefur aukist innan þeirra sveitarfélaga sem bjóða upp á slíkan styrk. Þrátt fyrir að slíkir styrkir standa mörgum til boða hér á landi þá eru enn fjölskyldur sem standa höllum fæti fjárhagslega og eiga erfitt með að greiða fyrir frístundastarf barna sinna. Það er mat Framsóknar að styðja verði enn betur við börn og ungmenni hér á landi til að stunda þá frístund sem þau vilja ásamt því að styðja við íþrótta- og tómstundahreyfingar landsins.

Jöfnum aðstöðu fjölskyldna með vaxtarstyrkjum

Eitt helsta kosningaloforð Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar er að ríkið styðji við frístundir barna með árlegri 60 þúsund króna vaxtarstyrkjum til allra barna og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Fyrirkomulag þeirra er mjög sambærilegt frístundastyrkjum, en takmarkast ekki við búsetu eða neina aðra þætti. Allar fjölskyldur eru jafnar þegar að styrknum kemur og öll börn hér á landi geta fengið að njóta góðs af honum.

Hvort sem um er að ræða líkamlegt eða andlegt atgervi og félagsskap sem börn sem stunda íþróttir og aðrar tómstundir öðlast þá er ljóst að til mikils er að vinna með því að jafna aðstöðu allra barna til þátttöku í íþróttum og tómstundum óháð efnahag. Það á við um allt skipulagt íþrótta- og tómstundastarf hvort sem það er knattspyrna, píanó, júdó, hestamennska, skák, skátar, körfubolti, myndlist eða hvað annað. Með þessu náum við frekari jöfnuði, stuðlum að lýðheilsu og forvörnum ásamt því að tryggja fjölbreytta íþrótta- og tómstundaiðkun á Íslandi.

Brynja Dan situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Norður.

Sigrún Elsa situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Suður.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×