Skoðun

Heilbrigðiskerfið þarf að endurreisa

Fjóla Hrund Björnsdóttir skrifar

Ef Íslendingar eru sammála um eitthvað þá er það það að heilbrigðiskerfið okkar er komið að þolmörkum, svo mjög að gera þarf róttækar breytingar á því. Eftir fjögur ár undir núverandi stjórn er svo komið að endurreisa þarf það sem er okkur mikilvægst, sjálft heilbrigðiskerfið.

Við í Miðflokknum leggjum áherslu á uppbyggingu og endurreisn heilbrigðiskerfisins. Um það höfum við skýra aðgerðaáætlun. Það þarf að efla heilsugæsluna um land allt og færa hana nær íbúum þar sem fólk á að geta búið hvar sem er á landinu en sótt sér grundvallarþjónustu. Um leið þarf að eyða biðlistum en þeir eru eru sársaukafullir fyrir sjúklinga og dýrir fyrir ríkissjóð. Tryggja þarf rétt allra Íslendinga til að komast í nauðsynlegar læknisaðgerðir, nú þegar.

Bylting í forvörnum

Yfirgripsmikil heilbrigðisskimun hefur ekki sést áður hér á landi en er vel þekkt út í heimi. Skimanir vegna heimsfaraldursins hafa gengið vel, en þau vandamál sem hafa komið upp vegna krabbameinsskimana kvenna minna á mikilvægi þess að tryggja öllum landsmönnum rétt á að fylgjast með eigin heilsu. Við í Miðflokknum boðum heilbrigðisskimanir sem munu bjarga mannslífum, bæta lýðheilsu og spara í ríkisrekstri til lengri tíma þar sem sjúkdómar og hættur uppgötvast vonandi í tæka tíð.

Nýr Landspítali er enn í byggingu, þrátt fyrir langa bið eftir honum sem hefur valdið óþæginum fyrir bæði starfsfólk og sjúklinga við Hringbraut. Við í Miðflokknum viljum huga að uppbyggingu á nýjum spítala á nýjum stað, þó svo að bygging spítalans við Hringbraut, sem mætti kalla framlengingu á núverandi spítala, sé enn í gangi. Við þekkjum vel að það tekur tíma að teikna og undirbúa byggingu nýs spítala og því verðum við að nýta tímann og tækifærin sem við höfum núna til að vinna okkur í hag.

Horfum á heildarmyndina

Til þess að allir þessir þættir sem taldir eru upp geti virkað sem skildi þarf að huga að bættu starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks. Landspítalinn þarf að vera spennandi vinnuumhverfi með góða aðstöðu til að vera samkeppnishæfur, bæði gagnvart fyrirtækjum hér á landi og ekki síður erlendis.

Við Íslendingar verðum að horfa á heildarmyndina. Landsmenn eiga skilið að fá góða og skilvirka heilbrigðisþjónstu. Miðflokkurinn mun standa við loforð sín um bætt heilbrigðiskerfi og vinna að því að stytta biðlista, koma af stað heilbrigðisskimunum og hugsa til framtíðar í heilbrigðisþjónustu. Við gerum það sem við segjumst ætla að gera.

Höfundur skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×