Skoðun

Öruggt þak yfir höfuðið

Katrín Jakobsdóttir skrifar

Við Vinstri-græn vitum að húsnæðismál eru eitt stærsta kjaramálið. Þess vegna lögðum við mikla áherslu á umbætur í húsnæðismálum í náinni samvinnu við verkalýðshreyfinguna á kjörtímabilinu. Sú aðgerð sem við teljum hafa verið einna mikilvægasta er uppbygging í almenna íbúðakerfinu á góðu, öruggu og hagkvæmu leiguhúsnæði fyrir tekjulægri einstaklinga og fjölskyldur. Í tengslum við lífskjarasamningana tryggðum við stofnframlög til byggingar á 1.800 almennum íbúðum á árunum 2020-2022 sem gera 600 íbúðir á ári.

Samhliða því komum við á nýjum hlutdeildarlánum til að auðvelda tekju- og eignalitum einstaklingum og fjölskyldum að eignast sína fyrstu íbúð. Áætlað er að veita um 400 hlutdeildarlán árlega næsta áratuginn. Í ár og á því næsta má áætla að um þriðjungur af öllu nýju íbúðarhúsnæði verði til í tengslum við félagslegar húsnæðisaðgerðir hins opinbera, almennar íbúðir og hlutdeildarlán (600 almennar og 400 hlutdeildarlán). Fyrir utan þá staðreynd að frá hruni hefur ekki verið byggt meira af nýjum íbúðum en í fyrra og í ár.

Miðað við algenga markaðsleigu á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að húsnæðiskostnaður fjölskyldu sem fær húsnæði í almenna íbúðakerfinu geti varlega áætlað lækkað um tugi þúsunda á mánuði – og raunar eru dæmi um allt að 100.000 kr. lækkun húsleigu á mánuði. Það eru kjarabætur sem munar um. Ennfremur tryggðum við almennum íbúðafélögum lægri fjármagnskostnað með hagstæðri langtímafjármögnun í gegnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem leiddi til þess að hægt var að lækka leigu fjölda leigutaka hjá Bjargi íbúðafélagi um allt að 35.000 kr. á mánuði – svoleiðis virka nefnilega óhagnaðardrifin félagsleg húsnæðiskerfi.

Fyrir þessar kosningar leggjum við áherslu á að halda áfram á þessari vegferð og tryggja áframhaldandi kraftmikla uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með stofnframlögum sem eykur framboð á öruggu og hagkvæmu húsnæði.

Stóra málið í þessu öllu saman er að með félagslegum lausnum á húsnæðismarkaði eykst húsnæðisöryggi og lífskjör margra batna til muna. Og það er sérstakt markmið að einstaklingar, foreldrar og börn þurfi ekki að kvíða því að hafa ekki öruggt þak yfir höfuðið. Það eykur velsæld samfélagsins alls að tryggja húsnæðisöryggi okkar allra!

Höfundur er forsætisráðherra og skipar 1. sætið á lista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×