ViðskiptaMogginn greinir frá kaupunum en þjónustan er enn á þróunarstigi. Að sögn Stefáns Arnars Þórissonar og Arnars Arinbjarnarsonar, stofnenda Uppkasts, verður allt efnið á íslensku og efnistökin fjölbreytt.
Munu notendur meðal annars fá aðgang að myndverum til þess að taka upp efni og senda það út í gegnum smáforrit Uppkasts. Verður þar hægt að setjast niður í myrkvuðu hlaðvarpsherbergi, upplýstum tónleikasal eða fullbúnu eldhúsi þar sem allur tækni- og myndvinnslubúnaður er sagður vera til staðar. Einnig verður tekið við tilbúnu myndefni.
Áhorfsmínútur stýra tekjum
Á vef Uppkasts segir að streymisveitan sé „hinn fullkomni vettvangur fyrir þá sem vilja koma á framfæri hæfileikum sínum hvort heldur í gegnum lifandi streymi eða með uppteknu myndefni.“
Boða stofnendur að upptökur og eftirvinnsla í myndverunum verði notendum að kostnaðarlausu en áhorfsmínútur stýri tekjum þeirra.