Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir af fossinum en ef kosið yrði um fegursta náttúrudjásn Vestfjarða kæmi vart á óvart ef Dynjandi skoraði hæst.

Fyrir fáum árum hefðu menn þó búist við því að sjá þar tómt bílastæði um miðjan septembermánuð fremur en fjölda ferðamanna og rútubíla í röðum.
Með rútunum kom hópur þýskra ferðamanna af skemmtiferðaskipi frá Ísafirði. Leiðsögumaður hópsins, söngkonan Sibylle Köll, segir í fínasta lagi að skoða landið um þetta leyti árs, þótt kominn sé smákuldi í loftið.

En hvernig upplifa ferðamennirnir fossinn og Vestfirði?
„Þeim finnst þetta magnað, yfirleitt. Allir þessir fossar og krafturinn, náttúrukrafturinn og allt saman,“ segir Sibylle Köll.

Eigandi rútubílanna, Trausti Ágústsson, framkvæmdastjóri Vestfirskra ævintýraferða, segir tímabilið hafa lengst.
„Maður hefur verið með þetta í svona þrjá, þrjá og hálfan mánuð. Nú er þetta komið í fimm.“
Og þakkar einkum Dýrafjarðargöngum.

„Að miklu leyti samgöngum og Dýrafjarðargöngum, já. Og þegar verður búið að byggja upp þennan veg hérna rétt hjá okkur þá er kominn bara draumur að geta farið Vestfjarðahringinn. Og þá erum við komin í alvöru ferðamennsku,“ segir Trausti.
Sibylle segir að þýski ferðahópurinn hafi daginn áður verið í Dimmuborgum við Mývatn.
„Og þar voru haustlitirnir komnir og bara ofboðslega fallegt,“ segir Sibylle.

Trausta rútubílstjóra dreymir um heilsársferðamennsku á Vestfjörðum.
„Við eigum kannski tíu ár í það, ef stjórnvöld verða okkur hliðholl í vegakerfinu.“
-Óttastu að þetta verði allt skorið niður eftir kosningar?
„Ég óttast það. Ég óttast það,“ svarar framkvæmdastjóri Vestfirskra ævintýraferða.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: