Skoðun

Af hverju er ég í Sjálf­stæðis­flokknum?

Elsa B. Valsdóttir skrifar

Miðaldra kona í úthverfi sem hjólar í vinnuna, drekkur kombucha, reynir að halda kjötneyslu og plastnotkun í lágmarki, hefur efasemdir um laxeldi í sjó og telur sig vera feminista getur ekki átt neina samleið með Sjálfstæðisflokknum, er það? Ef við bætum við að hún sé læknir sem starfar í heilbrigðiskerfinu og þekkir því raunir þess frá fyrstu hendi þá hlýtur þetta að vera útrætt mál því í Sjálfstæðisflokknum er alltaf bara verið að tala um peninga en ekki fólk, ekki satt? Samt hefur þessi kona (ég semsagt) starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðastliðin 30 ár og unir sér bara vel. Af hverju er það?

Peningar eru undirstaða velferðar 

Það er rosalega auðvelt að segjast vilja gera allt fyrir alla. Öll viljum við öflugt heilbrigðiskerfi, sterkt menntakerfi, trygga afkomu eldri borgara og lífsgæði fyrir öryrkja. Þetta kostar hins vegar allt peninga og meira að segja rosalega mikið af peningum. Það er því stærsta velferðarmál þjóðarinnar að ríkissjóður sé rekinn án halla, að lántökum og þar með vaxtagreiðslum af lánum ríkissjóðs sé haldið í lágmarki og að fyrirtækjunum í landinu sé skapað rekstarumhverfi sem er stöðugt og sanngjarnt. Hallarekstur ríkissjóðs þýðir ekkert annað en að kostnaðinum við velferð dagsins í dag er velt yfir á komandi kynslóðir. Hver króna sem fer í að borga niður lán er króna sem ekki fer í heilbrigðiskerfið eða önnur góð mál, þetta þekkja allir sem eru sjálfir að borga vexti af sínum eigin lánum. Fyrirtæki sem berst í bökkum er fyrirtæki sem ekki getur borgað skatta eða greitt starfsmönnum sínum mannsæmandi laun - án öflugra fyrirtækja verður engin verðmætasköpun eða atvinna, ríkið býr ekki til nein verðmæti, það gera fyrirtækin og fólkið í landinu. Að tala um peninga þarf nefninlega að koma á undan því að tala um fólk því án peninga gerir enginn neitt fyrir neinn. Skattheimta í hófi, lágir vextir og skynsamleg nýting skattfés eru umræðuefni sem fáir nenna að hlusta á og þykja jafnvel merki um kaldlyndi en eru engu að síður grunnurinn að því velferðarþjóðfélagi sem við viljum búa í.

Höfundur er skurðlæknir og skipar 8. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×