Í tilkynningu frá félaginu segir að í byrjun sumars hafi rekstur Kynnisferða og Eldeyjar sameinast og að með henni verði áhersla aukin á stafræna vegferð og markaðsstarf á netinu með það að markmiði að auka áhuga ferðamanna á komu til Íslands.
„Til að styðja við þessa vegferð hefur Axel Gunnlaugsson verið ráðinn sem yfirmaður upplýsingatækni og Atli Björgvinsson sem stafrænn markaðsstjóri.
Axel nam tölvu- og upplýsingafræði í Bandaríkjunum, við University of Oregon og hefur sérhæft sig í þróun hugbúnaðar og högun tæknilegs umhverfis fyrirtækja bæði hérlendis og erlendis. Frá árinu 2012 hefur Axel starfað við eigin rekstur hjá félaginu Codilac við ýmis konar ráðgjöf og þjónustu í upplýsingatækni. Áður starfaði Axel sem yfirmaður upplýsingatækni hjá 365 og Sýn.
Atli nam viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst. Atli hefur starfað sem markaðstjóri Icelandic Startups, verkefnastjóri hjá Vodafone og unnið við kennslu í samfélagsmiðlum hjá Háskólanum á Bifröst svo eitthvað sé nefnt,“ segir í tilkynningunni.