Anne Milgram, yfirmaður DEA, segir í viðtali við Washington Post að Bandaríkin séu í krísu að hennar mati og þessum lyfjum sé að miklu leyti um að kenna. Því hafi sú ákvörðun verið tekin að gefa út sérstaka viðvörun við þeim í dag.
Fíkniefnalögreglan hefur ekki gefið út sambærilega viðvörun frá 2015 þegar varað var við því að heróín sem innihéldi fentanýl væri í dreifingu í Bandaríkjunum. Fentanýl er ópíóði sem er áttatíu til hundrað sinnum öflugra en ópíum. Það var þróað til að draga úr verkjum krabbameinssjúklinga.
Á vef DEA segir að fentanýl sé iðulega notað til að auka styrk heróíns eða selt fíklum sem heróín. Það að fíklar telji sig hafa keypt heróín en hafi í raun keypt fentanýl hafi leitt til dauða fjölmargra.
Rúmlega 93 þúsund dóu vegna of stórra skammta lyfja í Bandaríkjunum í fyrra. Það var nærri því þrjátíu prósenta aukning frá 2019.
Tvær af hverjum fimm bannvænar
Í áðurnefndri viðvörun DEA, sem ber titilinn „Ein pilla getur drepið“, segir að frá 2019 hafi magn pilla með fentanýli sem stofnunin hefur lagt hald á aukist um 430 prósent. Rannsóknir hafi sýnt að tvær af hverjum fimm pillum innihaldi mögulega banvænt magn fentanýls.
Washington Post segir að á þessu ári hafi stofnunin lagt hald á 9,6 milljónir pilla sem framleiddar hafi verið af glæpasamtökum og innihaldi fentanýl. Það séu fleiri pillur en lagt var hald á árið 2020 og árið 2019 samanlagt.
Frá árinu 1999 hafa Bandaríkin gengið í gegnum versnandi lyfjafaraldur, sem í fyrstu lýsti sér í mikilli notkun ópíóða eins og Oxycodone, Vicodin og Percocet. Undanfarin ár hefur dauðsföllum vegna þessa faraldurs farið verulega fjölgandi og þá að miklu leyti vegna aukinnar notkunar fentanýls.
Milgram segir að glæpasamtök í Kína og Mexíkó flytji mikið magn lyfja til Bandaríkjanna sem seld séu á netinu sem Oxycodone, Percocet eða Adderall. Pillurnar innihaldi þó í raun fentanýl eða metamfetamín.