Að lokinni endurtalningu atkvæða í kjördæminu síðdegis á sunnudag var ljóst að niðurstaðan var ekki sú sama og í fyrstu talningu. Á sunnudagskvöld greindi svo yfirkjörstjóri kjördæmisins frá því í samtali við Vísi að ekki hafi verið gengið frá kjörgögnum á milli talninga eins og lög segja til um.
Einhverjir hafa kallað eftir því að blásið verði til nýrra kosninga í kjördæminu, sem gæti raskað niðurstöðu kosninganna verulega. Bæði gæti það breytt því hvaða menn komast inn á þing í Norðvesturkjördæmi og hverjir uppbótaþingmenn verða í öðrum kjördæmum.
En eru íbúar kjördæmisins þeirrar skoðunar að blása skuli til nýrrar atkvæðagreiðslu?
Fréttastofa tók Borgfirðinga á tal í dag og fæstir voru á því að ganga ætti til kosninga að nýju.