Sjá má á vef Veðurstofunnar að henni bárust tilkynningar um tvo borgarísjaka á þessum slóðum í fyrradag, annar þeirra er botnfastur en hinn stór og mikill. Hann virðist vera laus en hreyfist þó lítið að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.
Portúgalinn Pedro Rodrigues er forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar Rifs, sem staðsett er á Melrakkasléttu.
Í samtali við Vísi segist hann telja að borgarísjakinn sé um fimm hundruð metrar á lengd, þó erfitt sé að greina það nákvæmlega þar sem hann ísjakinn töluvert frá landi.

Meðfylgjandi mynd ýkir stærð ísjakans að einhverju leyti þar sem hún er tekin með 65-földum aðdrætti, en engu að síður er borgarísjakinn í stærri kantinum.
Frá Haunhafnarvita líti borgarísjakinn út eins og eyja búin til úr ís.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er skýjahula á þessum slóðum og því hafa ekki náðst gervitunglamyndir af ísjökunum. Sennilegast sé að borgarísjakarnir hafi brotnað úr Grænlandsjökli og borist með hafstraumum til Íslands.
