Allir flokkar sem eiga fulltrúa í undirbúningskjörbréfanefnd hafa tilnefnt sína fulltrúa í nefndina. Viðreisn og Miðflokkur fá ekki sæti í nefndinni heldur aðeins áheyrnarfulltrúa en kjörbréfanefndin er skipuð út frá þingstyrk flokkanna.
Fyrir Sjálfstæðisflokk eru tilnefnd þingmennirnir Birgir Ármannsson og Vilhjálmur Árnason auk Diljá Mist Einarsdóttur sem er nýr þingmaður flokksins. Píratar tilnefna þingmanninn Björn Leví Gunnarsson, Flokkur fólksins tilnefna formann flokksins, Ingu Sæland, Samfylking, Þórunni Sveinbjarnardóttur sem tekur sæti á þingi og VG Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Þá tilnefnir Framsóknarflokkurinn Líneik Önnu Sævarsdóttur og Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur.
Nefndinni býður nú það flókna verkefni að ákveða hvort talning og meðhöndlun kjörgagna í Norðvesturkjördæmi sé lögmæt.
Þrír hafa kært framkvæmdina, einn til lögreglu og tveir til kjörbréfanefndar Alþingis.
Willum Þór Þórsson forseti Alþingis býst við að nefndin taki til starfa strax eftir helgi en hann tók við kæru eins frambjóðanda á Alþingi í gær.
„Ég kalla formlega eftir tilnefningu í undirbúningskjörbréfanefndina. Þar sem Landskjörstjórn er búin að gefa út kjörbréf þá getur nefndin hafið störf strax eftir helgi,“ segir Willum Þór Þórsson.