Jarðskjálftahrina hófst við Keili í síðasta mánuði. Veðurstofa Íslands birti mynd gervitunglsins Sentinel-1 af svæðinu sem sýnir breytingar sem hafa orðið þar frá 23. september til 5. október. Engin merki sjást um breytingar á jarðskorpunni á slóðum hrinunnar.
Líkön Veðurstofunnar sem byggja á jarðskjálfta- og landmælingagögnum gefa til kynna að ef kvikan safnast nú fyrir á svæðinu sé hún ekki í miklu magni og á talsverðu dýpi, enn meira en fyrir eldgosið í Geldingahrauni í mars.
Safnist kvikan fyrir á meira en fimm kílómetra dýpi kæmi það ekki fram á gervitunglamyndum fyrr en töluvert meira magn hefði safnast fyrir. Jarðskjálftavirknin hefur að megninu verið á enn meira dýpi en það, að því er segir í færslu á Facebook-síðu Veðurstofunnar.