Afmælisútgáfan byggir á upprunalegu íslensku útgáfunni sem hafði annan lagalista en sú útgáfa sem kom út á heimsvísu. Að auki eru tvö ný áður óútkomin lög.
My Head Is an Animal (10th Anniversary Edition) er komin út á streymisveitum en vegleg vínyl útgáfa plötunnar kemur út á næsta ári. Myndbandið við lagið „Phantom“ má sjá í spilaranum hér fyrir neðan:
Eins og áður sagði eru tvö ný lög á þessari afmælisútgáfu. Það eru lögin „Phantom“ og „Sugar In a Bowl“. Þó svo lögin séu ný hljóðrituð og hafi ekki komið út áður þá eru þau ekki ný fyrir hljómsveitinni. „Phantom“ var fyrst flutt á Músíktilraunum árið 2010 og má því ætla að það sé eitt þeirra laga sem tryggði þeim sigur þar. Þá var „Sugar In a Bowl“ einnig samið fyrir meira en tíu árum síðan en aldrei hljóðritað.

Til að fagna þessum marka áfanga ætla Of Monsters and Men að halda tónleika í Gamla Bíói dagana 9. - 12. nóvember. Um er að ræða einstakan viðburð þar sem aðdáendum Of Monsters and Men gefst færi á að sjá sveitina á litlum en einum flottasta tónleikastað landsins. Það er ekki á hverjum degi sem Of Monsters and Men spilar á svo litlum tónleikastöðum en það var einmitt í Gamla Bíói sem sveitin spilaði á Músíktilraunum og hélt síðar útgáfutónleikana fyrir My Head Is an Animal.
Sveitin mun flytja My Head Is an Animal í heild sinni ásamt vel valin lög af öðrum plötum. Upphitun verður í höndum Lay Low (9. nóv), Mugison (10. nóv), Salóme Katrín (11. nóv) og Supersport (12. nóv). Enn má nálgast miða á aukatónleikana í Gamla Bíói á Tix.is