Starfsfólk á leikskólanum Sólborg í Sandgerði og nemendur í Sandgerðisskóla hafa greinst smitaðir af Covid-19.
Því ákvað aðgerðastjórnin að loka Sólborg um óákveðinn tíma á meðan smitrakning stendur yfir og þar til tekist hefur að ná utan um ástandið. Þá fellur skólahald í Sandgerðisskóla niður á morgun, föstudaginn 5. nóvember.
Auk þess verður Íþróttamiðstöðin í Sandgerði lokuð frá og með morgundeginum og yfir helgina. Félagsmiðstöðin Skýjaborg verður lokuð þar til annað verður ákveðið og kennsla í Tónlistarskólanum í Sandgerði fellur niður á morgun. Bókasafn Suðurnesjabæjar í sandgerði verður einnig lokað fram yfir helgi.
Til stendur að endurmeta aðgerðirnar í byrjun næstu viku, að því er segir í tilkynningu á vef Suðurnesjabæjar.
Bæjaryfirvöld á Akranesi hafa einnig gripið til umfangsmikilla aðgerða og lokana á skólum og stofnunum til að komast fyrir hópsýkingu þar.
Fjöldi smitaðra í gær var sá þriðji hæsti á einum degi frá upphafi faraldursins og aldrei hafa fleiri greinst smitaðir utan sóttkvíar á einum degi.