Skoðun

Galdramaðurinn frá Riga

Jakob Bragi Hannesson skrifar

Mikhail Nekhemyevich Tal var lettneskur sovétmaður sem fæddist 9. nóvember árið 1936 í Riga í Lettlandi og var af gyðingaættum. Hann hefði því orðið 85 ára fyrir nokkrum dögum. Mikhail Tal er talinn vera mesti fléttuskáksnillingur sögunnar og skákir hans leiftra af snilligáfu. Sumar skákir hans hafa orðið ódauðlegar og er helst líkt við fegurstu ljóð sem samin hafa verið. Skákir hans þóttu svo listfengar að líkja mátti við galdur. Enda fékk Tal fljótlega viðurnefnið galdramaðurinn frá Riga. Tal gekk undir gælunafninu Miska eða Bjössi á íslensku.

Mikhail Tal fæddist bæklaður á hægri hönd og með aðeins þrjá vafða fingur. Þrátt fyrir fötlunina var hann afbragðsgóður píanóleikari. Tal var lengi vel ævi sinnar háður morfíni vegna mikilla kvala sem stöfuðu af nýrnaveiki hans. Hann reykti fjóra pakka af löngum Kent sígarettum á dag. Angelina þriðja eiginkona hans sagði að hann reykti aðeins hálfa sígarettu og fleygði henni svo og kveikti jafnharðan í annarri. Þetta voru því ekki nema tveir Kent sígarettupakkar í raun og veru sem hann reykti á dag. 

Í þá daga var leyfilegt að reykja á skákmótum og sást oft ekki handaskil fyrir reyknum. Tal var nýrnaveikur allt sitt líf og sárþjáður mest allan sinn feril eftir mislukkaða nýrnaaðgerð þar sem annað nýrað var fjarlægt. Hann drakk einnig mjög mikið áfengi heima fyrir og í skákmótum. Fræg er sagan af því þegar Tal og annar sovétmaður sem var með honum á skákmóti deildu báðir efsta sætinu með sama stigafjölda fyrir síðustu umferðina. Þeir sátu að sumbli til klukkan fjögur um nóttina og byrjuðu síðan að tefla klukkan níu daginn eftir. Tal sigraði skákina og mótið. Angelina sagði að Tal hefði eingöngu drukkið hreint áfengi s.s. vodka eða viskí. Það hefði farið betur í hann.

Tal er einhver sigursælasti skákmaður sögunnar þó svo hann hafi aðeins verið heimsmeistari í eitt ár. Hann varð heimsmeistari 1960 þegar hann vann Botvinnik ríkjandi heimsmeistara og varð þá yngsti heimsmeistari sögunnar, 23 ára gamall. Hann tapaði fyrir Botvinnik strax árið á eftir. Tal mun hafa verið mjög þjáður af nýrnaveiki sinni þegar það einvígi fór fram.

Aldrei fékk Mikhail Tal að halda nema örlitlum hluta af verðlaunafé sínu sem hann vann á alþjóðlegum mótum. Hann fékk t.a.m. aðeins að halda 3000 dollurum af 30.000 sem hann fékk í verðlaun fyrir fyrsta sætið á móti í Kanada árið 1979. Sovétmenn vildu ekki að hann spilltist af kapitalískri auðhyggju. Hann lét verðlaunafé sitt glaður af hendi til KGB því hann vildi ekki eiga það á hættu að fá ekki að tefla á mótum erlendis. Ástríða hans var að tefla á stórmótum (tournaments).

Tal kom tvisvar á ferli sínum á Reykjavíkurskákmótið. Hann var boðsgestur á fyrsta Reykjavíkurskákmótinu, árið 1964. Mikhail Tal fékk þar 12/1/2 vinning af 13 mögulegum í afar vel mönnuðu skákmóti. Hafði Tal fáheyrða yfirburði á því móti. Eina jafnteflið sem Tal gerði var gegn Íslendingnum Guðmundi Pálmasyni.

Tal þótti afar skemmtilegur og léttur í lund og á yngri árum sínum var hann mikill kvennamaður. Eftirfarandi orð mælti þriðja eiginkona meistarans Angelina í viðtali eftir dauða hans: ,,You know, before me, he lived with all his women for two years at most, and with me he lived for 22 years. So he needed me. Probably because I wasn't a bitch".

Tal lenti í öðru sæti á Reykjavíkurskákmótinu, árið 1986, fimmtugur að aldri á eftir serbanum Svetozar Gligoric. Hann lést fimm árum síðar aðeins 55 ára, 26. júní árið 1992. Hann var þá enn einn öflugasti skákmaður veraldar. Við krufningu reyndust flest mikilvægustu líffæri hans ónýt. Heilsuleysi og óheilbrigt líferni flýttu fyrir ótímabærum dauða eins mesta skáksnillings skáksögunnar. Margir telja hann guð skáklistarinnar.

Mánuði fyrir dauða sinn sigraði Tal ríkjandi heimsmeistara Garry Kasparov á stórmóti í 17 leikjum með hvítu. Tal hafði þá komið beint af sjúkrahúsinu til að taka þátt í mótinu.

Mikhail Tal beats Kasparov in 17 Moves - 1 Month before his Death. Hér er slóð á skákina með frásögn og skákskýringum. https://www.youtube.com/watch?v=XJgmRYCweBc

Seinna sýnishornið er skák, sem Tal tefldi á móti þýskalandsmeistaranum Hans Joachim Hect árið 1962, á Ólympíuskákmótinu í Varna í Búlgaríu. Þetta er algjör flugeldasýning og vissi Hect ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Tal uppskar fyrir vikið koss á kinnina frá Miguel Najdorf argentíska stórmeistaranum fyrir dirfsku, frumleika og snilldartaflmennsku. Enn þann dag í dag þykir þessi skák ein af perlum skáksögunnar. Sjón er sögu ríkari. Mikhail Tal gets a KISS for a Brilliant Move! - Misha Impossible. Hér er slóð á skákina með frásögn og skákskýringum. https://www.youtube.com/watch?v=JtK9m_frVQc




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×