Það hefur verið meira en nóg að gera í nýju blómabúðinni í nýja miðbænum hjá Tinnu Bjarnadóttur eftir að hún opnaði í júlí í sumar. Til að auðvelda vinnuálagið á sér þá ákvað hún í haust að opna blómasjálfsala við búðina, sem hefur heldur betur slegið í gegn enda er hann opinn allan sólarhringinn. Það eru ekki bara blóm í sjálfsalanum því þar eru líka kökur, konfekt, pottaplöntur og gjafavörur. Fjórtán misstór hólf eru í sjálfsalanum.
„Þetta er algjör bylting og fyrir stærð af sveitarfélagi eins og við erum. Ég nenni ekki að vera hérna til 21:00 á kvöldin en mikil blómasala fer oft á milli 18:00 og 21:00 því fólk er á leið í matarboð eða veislur eða er óvænt að fá einhvern í matarboð, þá er auðvelt að redda sér hérna í sjálfsalanum í nýja miðbænum,“ segir Tinna.
Tinna segir mjög auðvelt að nálgast vörur úr sjálfsalanum, allt snertilaust og góðar leiðbeiningar á íslensku og ensku.
„Sjálfsalinn er að slá í gegn enda vekur hann mikla athygli, það eru mjög margir, sem snar hemla hérna fyrir utan og segja „sjálfsali“, „blómasjálfsali“ og taka myndir ánægðir með framtakið,“ bætir Tinna við.

Tinna segir fólk á öllum aldri duglegt að nota sjálfsalann þó karlarnir séu í meirihluta seint á kvöldin þegar blómin eru annars vegar og á nóttunni um helgar.
„Ég get mögulega verið að bjarga þeim stundum ef þeir eru aðeins of lengi, koma ekki heim á réttum tíma, þá gætu þeir nú reddað sér í blómasjálfsalanum,“ segir Tinna og hlær.
Fréttamaður prófaði að sjálfsögðu nýja sjálfsalann og fór með glæsilegan blómvönd heim handa sinni heittelskuðu.
