Jörundur Ragnarsson leikari fer með hlutverk Zacks Mossbergssonar, skopstælingar af Mark Zuckerberg forstjóra Facebook, í auglýsingu Íslandsstofu. Hann kynnir til leiks svokallað Icelandverse - en fyrirmyndin er sýndarheimurinn Metaverse sem samfélagsmiðlarisinn tilkynnti um fyrr í mánuðinum.
Zuckerberg hæstánægður
Peel auglýsingastofa ásamt M&C Saatchi Group sá um hugmynd og handrit en Allan Sigurdsson leikstýrði. Auglýsingin kostaði 10 milljónir í framleiðslu og sáralitlu fé hefur verið varið í birtingu á henni.
„Þetta eru sterkustu viðbrögð sem við höfum fengið við herferð en höfum þó oft fengið mjög jákvæð viðbrögð. Á þessari viku höfum við fengið sex milljón áhorf á myndbandið á samfélagsmiðlum. Og það hafa um 800 umfjallanir birst í erlendum miðlum á borð við Economist, Forbes, CNBC, Independent, Sky News og margt annað,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.
Zuckerberg sjálfur sá auglýsinguna og lýsti yfir mikilli ánægju með hana. En viðbrögð frá venjulegu fólki hafi heldur ekki látið á sér standa.
„Líka að þau vilji ferðast til Íslands, sem er markmiðið. Að þetta verði þess valdandi að þau vilji ferðast til Íslands sem er náttúrulega markmiðið með auglýsingunni.“
Sonurinn alls ekki ánægður
Jörundur Ragnarsson stjarna auglýsingarinnar segist aldrei hafa þótt líkur Zuckerberg en eftir á að hyggja sé leikaravalið rökrétt.
„Ég horfði á þetta Metaverse-vídjó og ég hugsaði strax. Já, ég ætti að geta gert þetta vel,“ segir Jörundur.
Misvel hafi verið tekið í Zuckerberg-klippinguna.
„Sonur minn var alls ekki ánægður með það. Kærastan mín, það tók tíma fyrir hana að venjast þessu. Mér finnst þetta allt í lagi sko, þetta vex.“