Talið er að allt að tíu þúsund íbúðir í Reykjavík séu í lyftulausum, þriggja til fimm hæða fjölbýlishúsum. Með nýjum hugmyndum að hverfisskipulagi sem nú er verið að kynna á Kjarvalsstöðum yrði þessum húsfélögum veitt heimild til að bæta við heilli íbúðarhæð, til dæmis eins og sést á myndinni hér fyrir ofan, samtímis því sem bætt yrði við lyftu.
Þúsundir húsfélaga, að öllum líkindum í öllum hverfum borgarinnar, gætu nýtt sér heimildina.
„Og nýta kannski byggingarréttinn sem kemur með því að selja íbúðir þarna á fimmtu hæðinni, nýta hagnaðinn af því til þess að fjármagna lyftu, breytingar og lagfæringar á húsinu, lagfæringar á lóðinni,“ segir Ævar Harðarson, deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkur. Hann fór ítarlega yfir hugmyndirnar í pistli sem birtist á Vísi í síðustu viku.
Samkvæmt ákvæðum núverandi byggingarreglugerðar er aðgengi að þessum fjölbýlishúsum ófullnægjandi. Það myndi breytast með lyftu - og gæti til dæmis gert eldra fólki kleift að búa lengur í íbúðum sínum en áður.
„Og kalla á það að það er kannski minni þörf fyrir hjúkrunarheimili, það yrði hægt að stunda meiri heimahjúkrun. Þetta bætir rosalega mikið lífsgæði,“ segir Ævar.
Fyrirmyndir skort
Heimildin var sett inn í hverfisskipulag í Árbæ 2019 en hefur ekki verið nýtt hingað til, einkum vegna skorts á fyrirmyndum. Reykjavíkurborg og Félagsbústaðir, sem eiga mörg fjölbýlishús þar sem heimildin gæti nýst, hafa því efnt til hönnunarsamkeppni um útfærslu á viðbótarhæð og lyftu.
„Sem Félagsbústaðir gætu nýtt fyrir sig en vonandi húsfélögin líka. Það eru miklir möguleikar, það hafa litlar breytingar verið gerðar á þessum húsum.“