Rudo Mathivha, yfirmaður gjörgæslu Soweto‘s Baragwanath sjúkrahússins í Suður-Afríku, sagði á blaðamannafundi að töluverð breyting hafi orðið á þeim sjúklingum sem hafi þurft að leggja inn á gjörgæslu.
Ungt fólk væri að koma á sjúkrahús með aukin einkenni. Hún sagði flesta vera óbólusetta og hinir hefðu bara fengið einn skammt.
„Ég óttast það að þegar smituðum fjölgar muni heilbrigðiskerfið ekki ráða við álagið,“ sagði Mathivha samkvæmt AP fréttaveitunni. Hún sagði nauðsynlegt að fjölga gjörgæslurýmum í Suður-Afríku.
Fréttaveitan segir háskólanemendur í Pretoria, höfuðborg Suður-Afríku, hafa greinst smitaða af Ómíkron-afbrigðinu og að vísindamenn í Suður-Afríku áætli að um 90 prósent nýsmitaðra í landinu hafi smitast af því afbrigði. Þá gefa bráðabirgðarannsóknir til kynn að hver sem smitist af afbrigðinu sé líklegur til að smita tvo aðra.
Mikið stökkbreytt afbrigði
Ómíkron-afbrigðið var fyrst tilkynnt til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þann 24. nóvember. Afbrigðið er mikið stökkbreytt og gefa rannsóknir til kynna að það smitist auðveldar manna á milli og hafa vísindamenn áhyggjur af því að það gæti komist í gegnum bólusetningar vegna stökkbreytinganna.
Hingað til hefur afbrigðið einnig greinst í Botsvana, Belgíu, Hong Kong og Ísrael, samkvæmt frétt BBC. Þar að auki greindist einn smitaður af Ómíkron-afbrigðinu í Þýskalandi í morgun.
„Við höfum gífurlegar áhyggjur af þessum vírus,“ sagði prófessorinn Willem Hanekom, sem stýrir Heilbrigðisrannsóknarstofnun Afríku, við AP. Hann sagði Ómíkron-afbrigðið að mestu hafa greinst í Gauteng-héraði Suður-Afríku en vísendingar væru uppi um að það væri búið að dreifast um allt landið.
Hanekom sagði nauðsynlegt að afla mikilla upplýsinga sem fyrst. Enn sé til að mynda ekki vitað hve alvarlegum veikindum afbrigðið valdi.