Viðskiptablaðið segir að uppsagnirnar komi í að aðdraganda sameiningar Better og Spac, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar. Þá segir að Sigurgeir Jónsson, frændi Björgólfs hafi komið að stofnun Better og fari þar með stöðu yfirmanns fjármálamarkaða.
„Ef þú ert einn þeirra sem er á þessum fundi þá ert þú í hópi hinna óheppnu sem verið er að segja upp,“ sagði Vishal Garg, forstjóri Better á hinum tæplega þriggja mínútna fundi sem hefur verði hlaðið upp á samfélagsmiðlum. BBC segir frá því að Garg hafi verið harðlega gagnrýndur fyrir aðferðir sínar og þær sagðar kuldalegar og óvægnar, sér í lagi þegar svo stutt sé til jóla.
„Síðast þegar ég gerði þetta þá fór ég að gráta,“ sagði Garg þegar hann ávarpaði starfsfólkið. „Ég vildi óska þess að fréttirnar væru aðrar. Ég óska þess að við værum stöndug.“
Garg vísaði svo í að frammistaða starfsfólks og framleiðni, auk aðstæðna á markaði, lægju að baki fjöldauppsögnunum, sem hann sagði ná til fimmtán prósent starfsliðsins. Segir BBC frá því að Garg hafi ekki minnst á 750 milljóna króna innspýtingu fjárfesta til Better.com í síðustu viku.
„Heimskir höfrungar“
Bandaríska blaðið Fortune sagði frá því eftir uppsagnirnar að Garg hafi í eldri bloggfærslu sakað hluta þeirra sem sagt var upp um að „stela“ frá samstarfsfólki og viðskiptavinum með því að vera afkastarýr og einungis vinna tvö tíma á dag þó að það hafi sagst vinna átta tíma eða jafnvel lengur.
Í tilefni af uppsögnunum í síðustu viku hefur kastljósi verið beint á stjórnunarstíl Gargs, en Forbes sagði á sínum tíma frá því að hann hafi í tölvupósti látið fúkyrðaflaum ganga yfir starfsfólks. „Þið eruð ALLTOF ANDSKOTI HÆG. Þið eruð ekkert nema HEIMSKIR HÖFRUNGAR… ÞANNIG AÐ HÆTTIÐ ÞESSU. HÆTTIÐ ÞESSU. HÆTTIÐ ÞESSU STRAX. ÞIÐ ERUÐ MÉR TIL SKAMMAR.“