Greint var frá því í vikunni að maðurinn hafði verið handtekinn á Charles de Gaulle flugvellinum í París í gær. Hann er talinn vera einn af þeim 26 Sádum sem eftirlýstir eru af tyrknesku lögreglunni vegna morðsins.
Talsmaður sádí-arabískra yfirvalda lýsti því svo yfir eftir handtökuna að franska lögreglan hafi þarna farið mannavillt og að þeir sem hafi átt þátt í morðinu hafi þegar verið dæmdir í Sádí-Arabíu.
Svo virðist sem að sádí-arabísk yfirvöld hafi haft rétt fyrir sér en manninum var sleppt úr haldi í dag. Saksóknarar segja að eftir athugun hafi komið í ljóst að handtökuskipun sem handtakan var byggð á hafi ekki átt við viðkomandi einstakling.
Khashoggi, sem gagnrýndi reglulega í skrifum sínum stjórnvöld í Sádi-Arabíu, var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í tyrknesku stórborginni Istanbúl í október 2018.