„Við uppbyggingu hefur sjálfbærni verið höfð að leiðarljósi og nafnið því vel við hæfi enda Hveragerði þekkt fyrir sín fjölmörgu gróðurhús. Markmiðið er að að gestir geti staldrað við í fallegu umhverfi og notið alls þess sem Gróðurhúsið hefur uppá að bjóða,“ segir í tilkynningu um opnunina.
Hálfdan Pedersen sér um heildarhönnun og útlit Gróðurhússins en samvinna er með Flóru garðyrkjustöð um ráðgjöf varðandi gróður hússins sem að sjálfsögðu er í aðalhlutverki í sjálfum Blómabænum.

„Í suðurenda byggingarinnar er mathöllin með fimm frábærum veitingastöðum; Hipstur, Yuzu burgers, Wok-on, Taco vagninn og Pönk Fried Chicken (PFC). Í glerskálanum til suðurs er svo Nýlendubar Kormáks og Skjaldar en þar er hægt að upplifa suðræna stemningu og skála í svalandi drykk undir pálmatré. Barinn nær einnig til setustofu annarrar hæðar og þaksvala með frábæru útsýni til suðurs.
Í norðurenda byggingarinnar hafa gamalgróin vörumerki úr höfuðborginni komið sér fyrir s.s. Epal, Herrafataverslun Kormáks & Skjaldar og Álafoss. Einnig er þar starfrækt ný sælkeraverslun og matarmarkaður sem ber nafnið Me&Mu en þar er áherslan á smáframleiðendur og vörur beint úr héraði. Ísbúðin Bongo býður uppá nýja og skemmtilega nálgun í samvinnu við Kjörís. Kaffihúsið býður svo uppá léttar veitingar, girnilegan morgunverð og léttar veitingar ásamt hinum vinsælu açaí skálum frá Maika’i Reykjavík. Samstarf er við Te&Kaffi um kaffidrykki í kaffihúsinu og á eins hægt að gæða sér á þeirra frábæra kaffi á herbergjum hótelsins.“

The Greenhouse Hotel er lífstílshótel með áherslu á hágæða herbergi ásamt skemmtilegri stemningu og upplifun gesta. Hótelið er staðsett á efri hæðum byggingarinnar og hafa hótelgestir aðgang að norðursvölum en þar mun opna spa svæði sem tilvalið er til slökunar.
„Lagt er upp með að gestir geti slakað vel á og náð í alla sína þjónustu sem þeir þurfa innan Gróðurhússins. Þeir sem kjósa geta síðan notið fjölbreyttrar útivistar sem er að finna í bakgarðinum í Reykjadal en þar er heiti lækurinn og Hengillinn vinsælir áningastaðir. Margir fara í göngur, fjallahjól og útreiðartúra ásamt því að veiða í ánni og spila golf í sveitinni. Það er síðan margt í boði í nágrenninu og vinnur Gróðurhúsið náið með ferðaþjónustuaðilum í nærumhverfi sínu.“
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar fleiri myndir af Gróðurhúsinu í Hveragerði. Allar myndirnar tók ljósmyndarinn Baldur Kristjánsson.